sunnudagur, júlí 30, 2006

Bæsikkel

Heyrði í fréttunum í gær að mótorhjólum hefði fjölgað allverulega hér á landi undanfarin misseri. Einmitt, eins og við höfum ekki tekið eftir því. Held að það sé í lögum hjá öllum mótorhjólafélögum að spyrna upp brekkuna hér fyrir utan og helst að búa til sem mestan hávaða, helst nokkrum sinnum á kvöldi. Þegar það er pása í spyrnuæfingunum hjá þeim verður nær undantekningarlaust óhapp eða slys hér fyrir sunnan hæðina því að sjúkra- lögreglu- eða slökkviliðsbílar þvælast hvor fyrir öðrum þegar þeir væla blikkandi hjá! Gunni Bigg (eða Gunni Bæjó eins og hann er stundum kallaður) lét setja moldarhrúgu hér fyrir utan sem gerir takmarkað gagn. Vona að skrjáfið í ánamöðkunum vekji hann á nóttunni hér vestar í bænum.
Fór nokkur tími hjá mér áðan í að reina að laga hljóðið í sjónvarpinu. Hefði ekki þurft þess, voru víst bara tónleikar með Sigurrós. Tók smá tíma að róa stelpun og svæfa.
Annars er ljómandi að frétta af stúlkunni, borðar og sefur eins og vanalega. Við fórum með hana á rúntinn í barnavagni í gær og til Binna langafa hennar í dag, ekki í barnavagni samt. Svo komu Siggi, Kristín og börn í heimsókn í dag, Kalli og Steina og börn í kvöld. Brjálað að gera þó svo að stelpan tæki þessu öllu frekar rólega. Þetta kom sér samt vel fyrir mig því ég fékk afsökun til að græja vöfflur og ýmislegt gúmmelaði fyrir gestina, plús kaffið og bakkelsið hjá Binna. Verð að passa mig að enda ekki í þriggja stafa tölu á viktinni í lok sumars.
Já það er rúnturinn enn og aftur hjá mér í fyrramálið. Flug á Akureyri og smotterí þaðan fram í Öxnadal. Síðan liggur leiðin austur á Djúpavog og vegirnir þaðan teknir suður á bóginn. Ætlum samt að taka styttri útgáfuna af vinnuvikunni að þessu sinni og verðum vonandi komnir heim á fimmtudag. Á ekki von á að við þræðum útihátíðirnar mikið þetta árið, en væri ekki leiðinlegt að komast út úr bænum. Tja ég þarf svo sem ekki að kvarta en gaman væri fyrir Ingu að sjá og heyra í venjulegum fák í stað mótorfáks eitt kvöld eða svo!
Bless í bili

Engin ummæli: