fimmtudagur, september 30, 2010

Revenge of the nerds

Hver man ekki eftir þessari mynd... nú ok ekki, jæja skiftir ekki máli. En það kannast flestir við bandarískar háskólamyndir með öllum sínum klíkum og hópum með öllum sínum undirförlu brögðum og aðferðum við að ota sínum tota og koma höggi á hinar klíkurnar.
Mér finnst nefnilega hálfpartin eins og ég sé að fylgjast með einni slíkri núna þegar ég fylgist með störfum alþingis. Allt sem ég sé eru klíkur sem býsnast yfir hvor annari og fara í hefnileiðangur til að hefna fyrir hefnileiðangurinn sem hin klíkan var í til að hefna fyrir síðasta hefnileiðangur....

Ríku flottu ljóshærðu velvöxnu strákarnir sem alltaf hafa ráðið öllu í skólanum misstu völdin til sætu ljóshærðu sólbrúnu stelpnanna sem, til að missa ekki aðgangin að bestu heimavistinni, ljósabekkjunum, klappstýrubúningunum og fleiru yfirborðskendu, mynduðu bandalag með furðulega liðinu sem þykir alltaf svo brjálæðislega vænt um öll blómin og dýrin að þau gleyma stundum fólkinu.
Minni klíkurnar fylgjast svo með og reyna að taka þátt. Gothic klíkan talar furðulega, meira að segja við hvort annað og hegðar sér enn furðulegar svo engin skilur neitt þeirra, meira að segja ekki þau sjálf. Þau eru samt alltaf að halda ræður, þau þeirra sem ná uppfyrir púltið. Svo er það gengið sem hékk alltaf með ríku flottu strákunum en er ekki alveg viss um hvernig á að haga sér núna. Voru miklu vinsælli og mikilvægari, en flestir hafa haft þá útundan og kennt þeim um að allir í skólanum fengu miklu hærri einkunnir en þeir áttu skilið. Sem veldur því núna að útskriftarskírteinin eru ekki tekin gild í neinum háskólum í öðrum löndum og engin treystir neinum sem útskrifast úr þessum helv... Icewitch skóla!
Svo núna datt nemendafélaginu, eða réttara sagt skákklúbbnum, að fara framá að aðal ríki flotti ljóshærði velvaxni strákurinn yrði skammaður fyrir að sjóður nemendafélagsins hvarf úr kassanum sem þeir og ljóshærðu stelpurnar voru að passa. Allir hinir ríku flottu ljóshærðu velvöxnu strákarnir urðu brjálaðir út í stelpurnar, af því að þær voru jú að passa kassan líka, öskureiðir út í blómaliðið, og rosa sárir út í nokkra genginu sem höfðu alltaf hangið með þeim.
Í framhaldinu eru allir farnir að rífast um hvort það hafi yfir höfuð verið nokkuð svo mikið í kassanum eða jafnvel að kassinn hafi verið frekar illa smíðaður af RFLVS og genginu á sínum tíma og því verið alltof auðvelt að stela úr honum. Svo heyrist líka að allir RFLVS ætli ALDREI aftur að tala við nokkrar af sætu stelpunum og algjörlega hunsa suma úr genginu. Allavega virðist engin hafa áhyggjur af því hvernig á að redda þeim hlutum sem nota átti sjóðinn til að borga fyrir.
Ég vona að klíkurnar jafni sig fljótlega svo hægt sé að gera eitthvað sem skiptir máli. Það er auðvitað drullufúlt að þurfa taka til eftir partíin og jafnvel að borga fyrir gjafirnar sem maður splæsti á liðið og allt snakkið og gosið!
Þetta gera nú samt flestir sem ekki eru í klíkum og þeir passa jafnvel líka uppá að allir komist heilir heim og hafi jafnvel nesti þangað til næsta partí byrjar.
Já sjálfsagt er til fólk í klíkunum sem hugsar ekki bara um klíkuna sína eða sjálfa sig.

þriðjudagur, desember 15, 2009

Ha ha..

.. þið hélduð að ég væri hættur! Að vísu hélt ég það líka, en ákvað fyrir skömmu (5mín) að prófa setja inn hérna einhverja gullmola sem (ef vel heppnast) gæti síðan gerst af og til. Það er ekki eins og það alltaf verið að trufla mann með símhringingum eða heimsóknum hérna á Fáskrúðsfirði. Nóbb alveg laus við það takk fyrir takk.
Ýmislegt hefur nú átt sér stað frá síðustu færslu. Fyrst má nefna að í pólitíkinni hefur verið fjallað um Icesave og ............... já um Icesave. Man ekki eftir fleiru af hinum opinbera vettvangi í augnablikinu.
Af okkur er það helst að frétta að eftir að ég réði mig hjá Johan Rönning í júní, sem hefur verið ljómandi fín vinna, hef ég hitt fjölskylduna samanlagt kannski í þjár vikur. Það er ca 20 vikum of lítið fyrir minn smekk á þeim tíma. Það verður ljúft að ná nokkuð góðum tíma um jól og áramót.
Við Inga ákváðum að gifta okkur núna í haust og fengum til þess verðlaunaljósmyndara sem framkvæmdi athöfnina með sóma. Þetta var frábær stund með okkar nánustu í Prestbakkakirkju þann merkisdag 10.09.09 og ekki skemmdi fyrir að nokkrir gestanna fóru ríðandi til kirkju ásamt betri helmingnum af brúðhjóninu!
Haustið hér eystra hefur einkennst af töluverðum rigningum og skúrum í grend, en í sumar aftur á móti var meira um svona skýfall af og til hér og þar. Verður virkilega spennandi að sjá hvernig úrkoman hegðar sér næstu misseri. Ef þetta fer ekki að lagst hafa menn hér um slóðir ákveðið að sækja um aðstoð ofanflóðasjóðs....
Læt þetta nægja að sinni hér á þessari síðu.
Já það má nefna það í leiðinni að ég var að byrja aftur að setja inn myndir á myndasíðuna okkar. Tekur tíma að tína þangað inn og enn lengri tíma að skrifa eitthvað "sniðugt" við þær líka, en hefst vonandi allt saman.
Þar til næst hafið það sem best.


sunnudagur, janúar 18, 2009

Sir Pryce

Já ég varð ekkert smá hissa í gærkvöldi þegar við Inga skruppum til Þórólfs að spila og spjalla. Átti von á að hitta pabba og mömmu og Kalla og Steinu. Þegar ég labba upp stigann og er að spjalla við Katrínu og rétt búinn að reka hausinn uppfyrir handriðið er bara öskrað; SÖRPRÆÆÆÆÆÆSSS. Ég missti andlitið, úr eitt slag, málið og ýmislegt fleira án þess þó að missa neitt í buxurnar, fölnaði upp og vissi ekkert hvað ég átti að gera. Þarna voru samankomnir mínir nánustu ættingjar og vinir með freyðivín og fjör til að skála fyrir útskriftinni minni í gær. Betri útskriftargjöf hefði ég ekki getað hugsað mér.
TAKK KÆRLEGA FYRIR MIG
Svona eftirá gat ég alveg séð fullt af hlutum sem að komu ekki alveg heim og saman sem tengdust þessu leynimakki, en það bara hvarflaði ekki að mér eitthvað svona. Erla Dagmar var líka veik og kannski ekkert rosaspennandi að fara frá henni, en þetta var virkilega vel heppnað verð ég að segja.
Annars er unga daman að hressast held ég og ég verð einnig búinn að jafna mig þegar líður á vikuna. Útskriftin sjálf var líka bara vel heppnuð og var frábær tilfinning að taka við skýrteininu. Nú tekur alvaran við, sem verður kannski ekki eins og maður var búinn að sjá fyrir sér en það rætist úr þessu vonandi fljótlega.
Glöggir vefvafrarar gætu hafa tekið eftir því að fáar færslur hafa verið hér undanfarið ásamt því að ekki hafa verið settar inn myndir síðan í haust. Hugmyndin er að bæta úr þessu fljótlega þar sem eitthvað verður um lausan tíma hjá mér.
Núna ætla ég að jafna mig aðeins betur á gærkvöldinu og sendi öllum góðar kveðjur með ósk um gleðilegt ár 2009.

föstudagur, desember 19, 2008

Lokið

Eitthvað hefur tækni(fræðin) verið að stríða mér, hef bara ekki náð að skrifa neitt hér í nokkurn tíma. Ýmislegt kemur til og þar á meðal vinna við lokaverkefni mitt í rafmagnstæknifræði. Nú hefur mér á einhvern ótrúlegan hátt tekist að ljúka því, kynna og verja. Skólagöngu lokið. Útskrift í janúar. Jeiij.
Annars er bara ágætt að frétta hjá okkur, við skólakrakkarnir komin í jólafrí sem sagt á meðan Inga er að vinna. Við förum síðan á mánudaginn til Vestmannaeyja og verðum hjá Hörpu, Elvari og Emilíu um jólin. Erlu Dagmar hlakkar mikið til að fá að leika við Emilíu, spranga og svoleiðis. Það verða ljúfir dagar um jólin hjá okkur allavega.
Núna þarf að klára jólaundirbúning og gera allt klárt fyrir brottför.
Bið að heilsa ykkur að sinni og óska öllum gleðilegra jóla. 

föstudagur, október 10, 2008

Skilanefnd..

..hefur tekið yfir þetta blogg. Ég fæ þó að rita einstaka línur hérna en þær eru allar ritskoðaðar. Ég hef ákveðið, vegna fjölda áskorana, að setja inn hérna nokkrar línur svona til að láta vita að við erum ekki fallin! Töluvert mikið hefur gerst frá síðustu færslu og væri of langt mál að fara í gegnum þá hluti hér. Ætla ég þó að nefna hestaferð Kjörseyrargengisins sem farin var um verslunnarmannahelgina og varð Húnaþing vestra að þessu sinni fyrir valinu. Gert var út frá Klömbrum þar sem vel var um okkur séð. Þetta var hin besta skemmtun og voru allir ánægðir með túrinn. Ég setti inn nokkrar myndir frá ferðinni.
Þá hefur fjárdráttur og rekstrarerfiðleikar sett mark sitt á síðustu vikurnar þar sem bæði voru fyrsta og önnur leit í Fagradal og Kjörseyri. Það stefnir í að við verðum bara í bænum þessa helgina, sem væri sú fyrsta síðan ég man ekki hvenær.
Það er svo sem margt sem mig langar til að tjá mig um og ber þar hæst sú krísa sem virðist hrjá okkur þessa dagana í tengslum við peningamál. Ég verð að segja alveg eins og er að ég er alveg orðlaus............................
Þar til næst bestu kveðjur.

miðvikudagur, júlí 23, 2008

Kollsármót

Þá er miklu og bráðskemmtilegu ættarmóti lokið. Þessi samverustund Ingu ömmu systkyna hennar og afkomenda þeirra stóð fyllilega undir væntingum og var virkilega gaman í alla staði. Það var skemmtileg viðbót að hafa þessa mjög svo fjarskyldu ættingja á flatsæng á gólfi félagsheimilins sem við vorum með á leigu.
Eins og þeir sem voru á mótinu vita var þetta virkilega vel heppnað og skipuleggjararnir eiga miklar þakkir skildar fyrir þetta framtak. Þarna voru saman komnir u.þ.b. 100 einstaklingar á öllum aldri frá þriggja mánaða upp í 86 ára og skemmtu sér saman alla helgina.
Þeir sem voru svo sniðugir að vera í fríi áfram, fannst það minna sniðugt aðfaranótt mánudagsins þegar verið var að troða draslinu í bílana og forðað sér burt af svæðinu vegna veðurs. Það sluppu nú allir lifandi frá þessu en hefði verið hægt að upplifa skemmtilegri útilegu geri ég ráð fyrir.
Ég læt þetta nægja að sinni. Setti inn slatta af myndum frá ættarmótinu.
Takk fyrir okkur og hafið það sem best.

þriðjudagur, júlí 15, 2008

Genamót

Kollsárgenin ætla að hittast um helgina við félagsheimilið Skjöld við Stykkishólm. Þarna hjá Skyldi, skyldi maður ætla að skyldmenni skyldu skemmta sér og öðrum. Skyldumæting skyldi maður ætla!

Hafði smá bil fyrir þá sem eru að missa sig úr hlátri.
Já það verður hellingur af liði, nærri 100stk í það heila hef ég heyrt. Þetta eru sem sagt Inga amma og systkyni ásamt afkomendum sem eru nokkuð á annað hundraðið. Ef ég þekki þetta fólk rétt verður ákaflega gaman þá. Slatti af gíturum og enn meira af söngvurum, hellingur af skemmtilegu fólki í góðu skapi, getur bara ekki klikkað.
Annars er ágætt að frétta. Inga og Erla Dagmar fóru norður á sunnudaginn og koma beint þaðan á ættarmót. Þær eru í sumarfríi næstu vikur meira og minna. Við Lilja erum hér í bænum og Arnar er aðstoðarbústjóri á Kjörseyri.
Þetta reddaðist með flugið erlendis hjá okkur skólafélögunum, fljúgum bara degi seinna og styttum ferðina um sólarhring.
Ætli ég láti þetta ekki nægja í bili. Setti inn nokkrar júlímyndir áðan.
Hafið það sem best.