fimmtudagur, september 30, 2010

Revenge of the nerds

Hver man ekki eftir þessari mynd... nú ok ekki, jæja skiftir ekki máli. En það kannast flestir við bandarískar háskólamyndir með öllum sínum klíkum og hópum með öllum sínum undirförlu brögðum og aðferðum við að ota sínum tota og koma höggi á hinar klíkurnar.
Mér finnst nefnilega hálfpartin eins og ég sé að fylgjast með einni slíkri núna þegar ég fylgist með störfum alþingis. Allt sem ég sé eru klíkur sem býsnast yfir hvor annari og fara í hefnileiðangur til að hefna fyrir hefnileiðangurinn sem hin klíkan var í til að hefna fyrir síðasta hefnileiðangur....

Ríku flottu ljóshærðu velvöxnu strákarnir sem alltaf hafa ráðið öllu í skólanum misstu völdin til sætu ljóshærðu sólbrúnu stelpnanna sem, til að missa ekki aðgangin að bestu heimavistinni, ljósabekkjunum, klappstýrubúningunum og fleiru yfirborðskendu, mynduðu bandalag með furðulega liðinu sem þykir alltaf svo brjálæðislega vænt um öll blómin og dýrin að þau gleyma stundum fólkinu.
Minni klíkurnar fylgjast svo með og reyna að taka þátt. Gothic klíkan talar furðulega, meira að segja við hvort annað og hegðar sér enn furðulegar svo engin skilur neitt þeirra, meira að segja ekki þau sjálf. Þau eru samt alltaf að halda ræður, þau þeirra sem ná uppfyrir púltið. Svo er það gengið sem hékk alltaf með ríku flottu strákunum en er ekki alveg viss um hvernig á að haga sér núna. Voru miklu vinsælli og mikilvægari, en flestir hafa haft þá útundan og kennt þeim um að allir í skólanum fengu miklu hærri einkunnir en þeir áttu skilið. Sem veldur því núna að útskriftarskírteinin eru ekki tekin gild í neinum háskólum í öðrum löndum og engin treystir neinum sem útskrifast úr þessum helv... Icewitch skóla!
Svo núna datt nemendafélaginu, eða réttara sagt skákklúbbnum, að fara framá að aðal ríki flotti ljóshærði velvaxni strákurinn yrði skammaður fyrir að sjóður nemendafélagsins hvarf úr kassanum sem þeir og ljóshærðu stelpurnar voru að passa. Allir hinir ríku flottu ljóshærðu velvöxnu strákarnir urðu brjálaðir út í stelpurnar, af því að þær voru jú að passa kassan líka, öskureiðir út í blómaliðið, og rosa sárir út í nokkra genginu sem höfðu alltaf hangið með þeim.
Í framhaldinu eru allir farnir að rífast um hvort það hafi yfir höfuð verið nokkuð svo mikið í kassanum eða jafnvel að kassinn hafi verið frekar illa smíðaður af RFLVS og genginu á sínum tíma og því verið alltof auðvelt að stela úr honum. Svo heyrist líka að allir RFLVS ætli ALDREI aftur að tala við nokkrar af sætu stelpunum og algjörlega hunsa suma úr genginu. Allavega virðist engin hafa áhyggjur af því hvernig á að redda þeim hlutum sem nota átti sjóðinn til að borga fyrir.
Ég vona að klíkurnar jafni sig fljótlega svo hægt sé að gera eitthvað sem skiptir máli. Það er auðvitað drullufúlt að þurfa taka til eftir partíin og jafnvel að borga fyrir gjafirnar sem maður splæsti á liðið og allt snakkið og gosið!
Þetta gera nú samt flestir sem ekki eru í klíkum og þeir passa jafnvel líka uppá að allir komist heilir heim og hafi jafnvel nesti þangað til næsta partí byrjar.
Já sjálfsagt er til fólk í klíkunum sem hugsar ekki bara um klíkuna sína eða sjálfa sig.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ég er alveg farin að "kasta" í aðalhlutverkin... shæse! er samt í smá vanda með gotharann sem nær ekki upp í púltið!
kreizan