fimmtudagur, febrúar 14, 2008

Jæja

Best að láta vita af sér. Viðurkenni að ég hef ekki verið sérlega duglegur í bloggheimum á þessu ári. Þetta er að sjálfsögðu argasta vanvirðing við alla mína dyggu lesendur og aðdáendur!
Það sem helst hefur borið til tíðinda undanfarið eru sennilega "fréttir" af umskiptingunum hér hinumegin við voginn, þ.e.a.s. í borgarstjórninni. Þau málefni verða ekki frekar rædd hér. Aðrir og skemmtilegri atburðir hafa átt sér stað, líkt og feiknin öll af afmælum. Þar á meðal átti undirritaður eitt slíkt og varð rétt rúmlega þrítugur einu sinni enn. Vorum boðin í nokkrar veislur og var það ljómandi gaman.
Erla Dagmar gerir fátt annað en að stækka og þyngjast. Hún er farin að tala heilmikið og rífast enn meira. Sem betur fer hnoðast hún oft upp stigana hérna sjálf, þó það taki tímann sinn.
Við förum norður á Kjörseyri um helgina og ætlar meirihluti fjölskyldunnar á þorrablót á Borðeyri. Reikna með að við Erla Dagmar höfum það huggulegt heima á meðan og kannski fær maður að smakka eitthvað súrmeti, sem hefur einhvern veginn gleymst á þessum þorra.
Engir stórviðburðir svosem aðrir sem ég man eftir að hafi gerst þannig að ég læt þetta nægja í bili. Eitthvað hefur verið tekið af myndum síðustu vikur sem bíða eftir innsetningu á netheima, sem verður vonandi fljótlega.
Þangað til næst......

Engin ummæli: