laugardagur, október 29, 2005

SNJÓR!

Mörgum til mikillar furðu fór að snjóa hér á Íslandi, bara svona allt í einu og ekki komin jól. Flestir létu það ekki stoppa sig í að reyna að komast á sumardekkjunum í vinnuna á föstudagsmorguninn! Að vísu stoppuðust nokkuð margir, en það var nú bara út af þessum kjánum sem ekki voru búnir að koma blessuðu saltinu á göturnar og tómum strætisvögnum sem þvældust fyrir.

Ég tók eftir því að flestir sem að voru svo óheppnir að vera ennþá á sumarhjólbörðunum, notuðu greinilega alla þá tækni sem þeir lærðu í ökukennslunni ásamt margara ára reynslu af íslenskum aðstæðum. Þ.e.a.s. að sleppa tengslisfetilnum nógu snöggt og stíga um leið eldsneytisgjöfina í botn. Þessi aðferð minnkar líkurnar á að ökumaður bifreiðarinna fyrir aftan, sem er stopp, fari að flauta óheyrilega því að þá er alveg eins og eitthvað sé að gerast. Samt er það svo einkennilegt að það gerist bara ekki neitt.

Ég tók einnig eftir því að þeir sem voru á svokölluðum jepplingum og jafnvel jeppum, margir hverjir að minnsta kosti, voru í einhverju svona samúðarspóli með hinum og ákváðu að nota ekki 4WD sem er í þeim flestum. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að þetta fólk kunni ekki að setja sjálfrennireiðina sína í 4WD og enn síður að það kunni ekki að keyra í snjó og hálku.

Já svona er þetta nú skemmtilegt þegar snjórinn kemur.

Engin ummæli: