Vegagerð
Þær fregnir voru að berast úr sveitasælunni að framkvæmdir við lagfæringu á vegi yfir Svínadal gætu jafnvel hafist á næstu mánuðum. Það þykja fréttir góðar og má reikna með töluverðri aukningu í umferð þegar sá vegur verður orðinn tvíbreiður og malbikaður. En Svínadalurinn er nú ekki bara vegarstæði, þetta er sögufrægt svæði og eins og þeir vita sem hafa Laxdælu lesið þá var Kjartan Ólafsson veginn þarna á Svínadalnum. Því er ekki úr vegi að kíkja á annsi skemmtilega útboðslýsingu um þessa framkvæmd, sem má sjá einhversstaðar, en brot úr henni fer hér á eftir.
„….og skal hafa veginn vestanmegin en ekki þeim megin sem Kjartan var veginn því það gengur engan veginn. Nokkurn veginn beint á móti þeim stað sem hann var veginn skal hafa veginn nokkurn veginn láréttan öðru megin en hallandi hinu megin, það gengur einhvern veginn. Þetta er gert til að forðast einhverju líkt því sem Bolli olli. Vitað er að margur verður feginn að hafa ekki veginn þeim megin sem Kjartan var veginn heldur horfa fram á veginn og hafa hann hinumegin“
Engin ummæli:
Skrifa ummæli