Dagur 7
Kanarý:
Þau eru komin á fljótandi þarna úti. Ekki mataræði heldur allt hitt. Það er búið að rigna einhver ósköp síðan seint í gærkvöldi eða nótt. Sem betur fer er hlýtt (27°)þannig að þetta veldur ekki miklum óþægindum þar sem flestir sem þarna eru, sulla í sjó eða sundlaugum hvort eð er mest allan tíman. Þau kvörtuðu allavega ekki og röltu bara um í dag og leituðu að regnhífum.
Ísland:
Ég er búinn að standa í ströngu núna seinni part dags. Þannig er mál með vexti að við höfum verið með íbúðina á sölu í nokkra mánuði og lítið hefur verið skoðað og enn minna boðið í. Nú nú ég hef hins vegar verið sveittur við það núna að laga aðeins til hjá mér og gera sýningarhæft, því það komu þrír aðilar til að skoða.
Þegar þessi ósköp voru yfirstaðin fóru að renna á mig ein til tvær grímur eða svo. Ég var eiginlega alveg viss um að Inga hefði fengið eitthvert fólk til að skoða svo ég mundi nú örugglega laga til og þrífa áður en ég kæmi út.
Heyrði í henni áðan og hún fullyrti að svo væri ekki, sem gerir það að verkum að maður fyllist barnalegri bjartsýni um mögulega sölu í nánustu framtíð.
Annað:
Þegar þetta er skrifað er u.þ.b. sólarhringur þar til Ásbraut Group sameinast á ný, sem allir aðilar hafa beðið eftir. Ég get varla beðið eftir að finna fyrir sandinum á milli tánna (ekki þó stóru tánna).
Jæja ég skal hætta þessu bulli.
Þar til næst, hafið það sem best.
Bless bless.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli