Til hamingju Ísland
Enn ein helgin liðin og flest gekk sinn vanagang.
Sylvía va gekkt ógesslea meiriháttar í söngvakeppninni skiluru sko og sem betur fer voru nokkrar reglur brotnar svo hún gæti haldið áfram. Þetta á eftir að koma sér vel fyrir keppendur í framtíðinni þegar allir geta “lekið” sínum lögum á netið. En hvað veit ég svo sem, er sennilega orðinn of gamall til að skilja þetta. Lærði íslensku þegar ég var ungur og þarf að fá þýtt og textað fyrir mig þegar hún talar.
Frakkar urðu Evrópumeistarar í handknattleik í gær þó svo að við hefðum orðið það í síðustu viku. Frændur okkar Danir náðu bronsverðlaunum á mótinu sem enginn hafði spáð þeim, enda eru þeir víst svolítið útundan hjá spámönnum þessa dagana.
Las pistil eftir Jón Gnarr aftan á Fréttablaðinu fyrir helgina, var ekkert fyndinn. (var sko einu sinni stundum fyndinn) Hann var að segja okkur að við þyrftum að skilja trúarbrögðin hjá fylgismönnum Abu al-Qasim Muhammad ibn ‘Abd Allah ibn ‘Abd al-Mut talib ibn Hashim, eins og hann heitir víst fullu nafni, til að skilja af hverju þeir vilja myrða og limlesta fólk fyrir teiknimyndir sem einhverjir gerðu. Ég kíkti aðeins á einhverjar síður um þessa trú og sá ekki betur en þetta væri svipaður boðskapur og hjá honum Isa ibn Maryam okkar, náði því ekki alveg að átta mig á þessari atburðarrás. En hvað veit ég svo sem, er sennilega of ungur og ótrúaður til að skilja þessa hluti.
Æi þetta er bara mánudagshugleiðingar, ekki taka þeim of alvarlega.
Annars bíð ég spenntur eftir fréttum af þorrablótum sem haldin voru hingað og þangað um landið sem og erlendis. Hildigunnur Skordal var víst að spila á þorrablóti Íslendingafélagsins í Óðinsvé og verður gaman að fá fréttir af því ásamt myndum
Bless í bili.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli