miðvikudagur, desember 19, 2007

Aðventan

Það er líklega kominn tími á að rita hér nokkrar línur. Nú er langt liðið á aðventuna og allir komnir í bullandi jólaskap, hvernig sem það er nú!
Ég er kominn í jólafrí og hef getað einbeitt mér að því að skrifa á jólakort. Er bara langt kominn með þessi 14 sem ég skrifa á. Skrapp út á pósthús í gær með pakka og keypti mér frímerki í leiðinni til að líma á jólakortin. Það væri svo sem ekki merkilegt nema fyrir það að ég hef greinilega ekki fylgst náið með þróun frímerkja undanfarið. Kom heim og byrjaði að rífa niður frímerkin á þessum gataröndum, sem er ekki neitt sérstaklega auðvelt, og byrjaði síðan að sleikja og líma á umslögin! Var eitthvað skrítið hvað límið var bragðlaust og enn skrítnara hvað þau duttu af umslögunum! Þetta kemur fyrir :)
Núna eru örugglega allir komnir í jólaskap eftir þessa skemmtilegu jólasögu. Annars gengur jólaundirbúningurinn ágætlega. Flestar jólagjafir klárar þó svo innpökkun sé ekki alveg búin. Jólatréð er komið á svalirnar. Síðan var verið að þrífa stigaganginn og var notað sag og einhver þurrhreinsun þannig að nú lyktar hann eins og risastórt hamstrabúr! Enda eru furðuverur á sveimi í búrunum inn af stigaganinum.
Siggi bróðir var á landinu um helgina og kíkti við ásamt Höbbu og Alexander Rósant. Var rosa gaman að hitta þessa þrjá ættliði og fá í heimsókn.
Læt þetta nægja að sinni.
Ég setti inn nokkrar myndir sem hafa safnast upp síðan í október.
Bestu jólakveðjur.

Engin ummæli: