mánudagur, júní 23, 2008

Vaaaaaááá...

...sagðir Erla Dagmar í morgun þegar hún æddi inn á baðherbergi þar sem pabbi hennar var að pissa. Þetta hefur hún ekki lært af mömmu sinni er ég hræddur um!
Jú jú það er sá tími mánaðarins/ársins sem maður hendi inn nokkrum línum. Það hefur ýmislegt gerst undanfarnar vikur sem vert væri að minnast á eins og hvítabirni t.d. Ég treysti mér bara ekki til að tjá mig um þau mál öll sömul þar sem að eftir að hafa lesið virt blogg þar um geri ég mér grein fyrir að þekking mín á meðhöndlun svona gæludýra er ekki fyrir hendi. Hélt í alvöru að þetta væru hættuleg dýr, en hvítabjarnabloggsérfræðingar hafa leiðrétt þann misskilning minn.
Það mætti líklega minnast á eldsneytisverð, en það þarf meira hraðskrifandi mann en mig til að halda í við það.
Einnig væri hægt að nefna lækkun krónunnar, lækkun krónunnar, lækkun krónunnar...... æ ég næ heldur ekki að halda í við þetta!
Ég lenti í því fyrir rúmri viku að það réðst gámur á afturrúðuna á bílnum hjá mér! Að vísu slapp bíllinn sjálfur þó að rúðan hefði brotnað. Skil ekki enn hvernig þetta gerðist, en það var bakkað á......
Eitthvað skemmtilegra. Við fórum á Rútstún á 17. júní og skemmtum okkur stórvel. Frábært veður og hrikalega skemmtileg ræða hjá Gunna Bigga Bæjó! Eeeee fín skemmtiatriði allavega.
Nú eru að verða komin tvö ár síðan Erla Dagmar kom í heiminn. Henni tókst að fá hjartað til að taka aukaslög þá og hefur alveg hæfileikana í það ennþá. Hún verður sem sagt tveggja ára á föstudaginn og ætli við höfum ekki kökur fyrir nánustu á fimmtudagskvöldið.
Mamma á afmæli í dag, rúmlega sextug svona eins og ég er rúmlega þrítugur. Innilega til hamingju með daginn.
Já það styttist nú í að fleiri myndir bætist á vefinn, en þegar vandað er til verka vill þetta oft taka lengri tíma ;-)
Bið að heilsa í bili og hafið það sem best.

Engin ummæli: